Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 377. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 462  —  377. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Bifreiðagjald á hverju gjaldtímabili er 6,83 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar allt að 1.000 kg, 9,21 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar umfram það að 3.000 kg, en 2.277 kr. af hverju byrjuðu tonni af eigin þyngd bifreiðar umfram það. Þó skal gjaldið ekki vera lægra en 3.416 kr. og ekki hærra en 41.193 kr. á hverju gjaldtímabili.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að bifreiðagjald hækki um 3,5%. Síðast var bifreiðagjald hækkað 1. janúar 2002. Bifreiðagjald hefur því ekki hækkað í samræmi við almenna verðlagsþróun á síðustu árum. Þannig hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæp 7% frá þeim tíma. Hér er því lögð til ákveðin leiðrétting á því. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði 120 millj. kr. í auknar tekjur.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 39/1988,
um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að bifreiðagjald hækki um 3,5%. Gjaldið hefur ekki verið hækkað síðan 1. janúar 2002. Áætlað er að hækkun gjaldsins auki tekjur ríkissjóðs um 120 m.kr. á ársgrundvelli. Frumvarpið beinist þannig einkum að tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki talið að það hafi áhrif á útgjöld svo að nokkru nemi verði það óbreytt að lögum.